1. maí - Lokað hjá Bændum í bænum

Lokað verður hjá Bændum í bænum á baráttudegi verkafólks, 1. maí.

Hér er samantekt um 1. maí sem fengin er af heimasíðu SFR.

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Árið 1889 hittust fulltrúar alþjóðasamtaka kommúnista á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889, í tilefni af því að hundrað ár voru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Þar var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og baráttudagur hreyfingarinnar. Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins. Í Skandinavíu var 1. maí fyrsti dagur sumars. Kirkjan helgaði 1. maí dýrlingnum Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí. Dagurinn hafði einnig verið valinn til þess að minnast blóðbaðsins á Haymarket í Chicago í Bandaríkjunum þremur árum áður.