Áramóta annál frá Akri


Þá er 2016 að lokum komið og þvílíkt ár sem þetta hefur verið.

Við fjölskyldan, Gunnar, Linda, Íris og Þórður Óðinn, fluttum okkur frá Noregi til Íslands í janúar til þess að gá hvort að það að vera lífrænir bændur væri eitthvað fyrir okkur.

Þetta var sannarlega stór ákvörðun þar sem Linda hafði aldrei fyrr stigið inn í gróðurhús og ég hef notað megnið af mínum yngri árum í að koma mér í burtu frá öllu sem við kemur ræktun og grænmetissölu Laugarási. Svona geta hlutirnir breyst með árunum. J

Það sem kom best á óvart var hversu vel Lindu líður í gróðurhúsunum. Hún hefur unnið í hótel- og veitingabransanum sl. 15 ár og finnst kærkomið og skemmtilegt að sjá plöntur vaxa og dafna, frekar en spjalla við mis ánægða hótel- og veitingagesti. Svo mikið dálæti hefur hún af nýju vinnuumhverfinu sínu að hún skráði sig í Garðyrkjuskóla ríkisins og var að rúlla upp fyrstu önninni þar.

Það hefur verið mikill drifkraftur í fólki í Laugarásnum undanfarið ár. Má nefna að nágrannar okkar sem hafa umbreytt næsta bæ, Ljósaland, frá því að vera ruslahaug bæjarins yfir í algjöra prýði sem gaman er að keyra framhjá á morgnana. Storð, trjásalan, er að undirbúa sig fyrir að færa alla trjásöluna sína frá Kópavoginum og hingað. Birkiflöt hefur fengið nýja eigendur sem eru algjörir nýliðar í ræktun en eru að taka hana með trompi. Engi byrjaði með tilraunastarfsemi í vínberjarækt og er aldrei að vita nema íslenskt vín verði afurðin af því. Einnig hefur Laugargerði farið í gegnum endurnýjun lífdaga og var skemmtilegur markaður þar í sumar. Síðast en ekki síst skal nefna að framkvæmdir á nýju lúxus heilsuhóteli hófst með niðurrifi á gamla sláturhúsinu. Mun fleira hefur væntanlega gerst án þess að ég telji það upp.

Eftir að ljóst var að Lindu leið vel í gróðurhúsunum, krökkunum leið vel í skólunum og ég hef unun af því að byggja upp og þróa alla rekstrarliði okkar, tókum við höndum saman og keyptum Akur tilbaka. Við Linda skrifuðum undir kaupsamninginn við Íslandsbanka í 2. desember, en það markaði endann á 7 ára ferli sem valt af stað í kjölfar hrunsins. Er Akur þar með orðið ættaróðalið að nýju.

Við festum líka 2 hektara af landi hinumegin við götuna hjá okkur, þetta land gefur okkur pláss til þess að hefja útiræktun á stærri skala og pláss til að huga að frekari uppbyggingu í framtíðinni.

Við vorum líka í hugmyndagír á þessu ári, eins og áður. Við fengum styrk frá SASS til þess að byrja að hanna og reisa færanlegt gróðurhús. Hugmyndin með þessi hús er að lengja ræktunartímabilið á útigrænmeti um allt að helming. Þetta ætti að gefa okkur fleiri uppskerur og möguleika á að rækta nýjar tegundir sem henta annars ekki stuttu íslensku sumri. Fyrsta húsið er komið vel af stað og mun rísa næsta sumar.

Við opnuðum búðina okkar, Bændur í bænum, með pomp og prakt. Hún er reyndar búin að vera starfrækt í nokkurn tíma núna, en við sættum okkur við það á þessu ári að hún væri komin til að vera og hættum að hugsa um hana sem jólamarkað sem aldrei hætti.

Núna er hugmyndin að færa verslunina í hentugra húsnæði, koma upp litlu súpu eldhúsi og bjóða upp á lífrænar súpur og nýbakað brauð.

Heimsfrægð á Íslandi kom í formi bananaknippis sem við uppskárum loksins í ár eftir 3ja ára bið. Þessu 70 bananastykki fengu heldur betur athygli í gegnum fjölmiðla og frá áhugasömu fólki sem vildi smakka og kaupa. Þetta fannst okkur heldur betur spennandi og gaf okkur kraft til að prufa nýja og spennandi hluti.

Að lokum viljum við þakka öllum sem hafa fylgst með okkur í gegnum árið. Það er ómetanlegur stuðningur sem fylgir því að vita að þið hafið áhuga á því sem er að gerast hjá bændunum í sveitinni.

Takk fyrir það gamla og tökum fagnandi á móti nýju ári.

Bændurnir á Akri.

Þórður, Karólína, Linda og Gunni

#frettir

Fréttaveita